Hvatning – hrós
Hvatning er góð aðferð til að kenna nýja hegðun og viðhalda henni. Hvatning strax í kjölfar æskilegrar hegðunar hefur mest áhrif og eykur líkur á að hegðunin verði endurtekin og lærist smám saman. Þegar kenna á nýja hegðun er nauðsynlegt að hvatning fylgi í kjölfarið hverju sinni en aðeins endrum og sinnum ef viðhalda á mótaðri hegðun.
Hugtakið hvatning er hér notað yfir allt sem með einhverjum hætti er viðurkenning starfsfólks skólans á æskilegri hegðun barna.
Hrós er dæmi um félagslega hvatningu. Það er góð leið til að sýna börnum jákvæða athygli og til að auka tíðni æskilegrar hegðunar. Hrós má bæði nota skilyrt og óskilyrt. Þegar talað er um skilyrt hrós er það háð skilyrðum, ef – þá, og fylgir í kjölfar tiltekinnar æskilegrar hegðunar. Ef barn hengir upp úlpuna sína þá fær það hrós. Mikilvægt er að hrós ( og reyndar öll hvatning) sé skilyrt (ef – þá) ef auka á tíðni æskilegrar hegðunar.
Hrósið þarf að vera nákvæmt: Gott hjá þér að ganga frá skónum þínum, í stað þess að segja aðeins: Þetta var gott hjá þér.
Hrós eykur mjög sjálfstraust barna og er árangursríkt ef það er nákvæmt og hrósað er fyrir nýja og betri hegðun eða færni. Einnig skiptir máli að hrósa af jákvæðni strax í kjölfar hegðunar en ekki með neikvæðum athugasemdum. Hrós þarf að vera auðskilið og einlægt.
Niðurstöður SET lista janúar 2016.
Tekið úr: Styðjandi foreldrafærni