Lög FOKS

Lög FOKS

 1.  grein. Félagið heitir Foreldra- og kennarafélag Síðuskóla (FOKS). Heimili þess og varnarþing er á Akureyri. Félagar eru foreldrar/forráðamenn nemenda skólans, kennarar og annað starfsfólk skólans.

 2. grein. Hlutverk félagsins er:

• Að styðja við skólastarfið

• Stuðla að velferð nemenda skólans

• Efla tengsl heimilis og skóla

• Hvetja til virkrar þátttöku foreldra í skólastarfi

• Hagsmunagæsla, aðhald og eftirlit með skólastarfinu

3. grein. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir 25. september  ár hvert og telst hann löglegur ef boðað er til hans skriflega með a.m.k. 5 daga fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Skýrsla stjórnar

3. Skýrsla fulltrúa foreldra í skólaráði

4. Ársreikningur félagsins lagður fram

5. Kosning í stjórn

6. Kosning í skólaráð

7. Lagabreytingar

8. Ákvörðun um árgjald félagsins

9. Önnur mál

4. grein. Fimm aðilar skipa stjórn félagsins auk fulltrúa kennara. Í varastjórn skulu kjörnir tveir aðilar. Stjórn og varastjórn skal kosin á aðalfundi með almennri kosningu þannig:

Formaður skal kosinn sérstaklega á aðalfundi úr hópi foreldra/forráðamanna til eins árs.

Að öðru leyti en að framan greinir skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnin getur skipað nefndir til ýmissa sérstarfa. Stjórnin stýrir og ber ábyrgð á allri starfsemi félagsins milli aðalfunda.

Á aðalfundi skal einnig kjósa tvo foreldra/forráðamenn í skólaráð eins og kveðið er á um í 9.gr.laga nr.91/2008. Auk þess kemur einn fulltrúi úr stjórn foreldrafélagsins.

Að síðustu skal aðalfundur kjósa tvo skoðunarmenn reikninga. Allir stjórnarmenn og skoðunarmenn reikninga skulu kosnir til eins árs.

5. grein. Upphæð árgjalds skal ákveða á aðalfundi. Kennarar og starfsfólk greiða ekki árgjald nema viðkomandi eigi börn í skólanum.

6. grein. Í hverjum árgangi skal vera starfandi bekkjarráð sem skipað er 4-6 foreldrum/ forráðamönnum (foreldrafulltrúar). Bekkjarráð skal sjá um 2-4 viðburði hvert skólaár auk þess að starfa við undirbúning og framkvæmd sérstakra verkefna þar sem þörf er á samstilltu átaki foreldra/forráðamanna, kennara og nemenda.

Á kynningarfundi í byrjun hvers skólaárs sjá umsjónarkennarar bekkja um að láta kjósa bekkjarfulltrúa fyrir komandi ár. 

Stjórn FOKS setur frekari starfsreglur fyrir bekkjarráð.

7. grein. Hver bekkur á sinn bankareikning á kennitölu FOKS. Foreldrafulltrúar tilnefna einn úr sínum hópi til að hafa umsjón með bankareikningi bekkjarins. Foreldrafulltrúar ákveða gjald í bekkjarsjóð sem greiða skal inn á reikning bekkjarins. Upphæð gjaldsins er háð samþykki stjórnar FOKS á hverjum tíma. Sé um sérstakar fjáraflanir að ræða, s.s. vegna útskriftarferðar, skulu þeir fjármunir geymdir á reikningi bekkjarins.

Fyrir 1. júlí eftir útskrift úr 10. bekk þurfa foreldrafulltrúar að vera búnir að ráðstafa fjármunum úr bekkjarsjóði. Ef einhverjir fjármunir eru enn á reikningi 10. bekkjar eftir 1. júlí renna þeir í sérstakan gjafasjóð hjá FOKS. Stjórn FOKS setur frekari reglur um bekkjarsjóði.

8. grein. Stjórn FOKS skal halda stjórnarfundi að jafnaði mánaðarlega meðan skóli starfar. Stjórnin skal hafa samráð og samvinnu við bekkjarráð og starfslið skólans og stuðla að góðri samvinnu allra aðila. Skólastjóri eða staðgengill hans hefur rétt til setu á fundum stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétt og skal boðaður á sama hátt og aðrir stjórnarmenn. 

9. grein. Stjórn FOKS og bekkjarráð skal ekki sinna klögumálum eða hafa afskipti af vandamálum sem upp kunna að koma milli einstaka foreldra/forráðamanna og starfsmanna skólans.

10. grein. Hætti FOKS að starfa renna eigur þess til Síðuskóla. 

11. grein. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Breytingartillögur skulu kynntar með aðalfundarboði og þarf 2/3 hluta atkvæða til þess að breytingar nái fram að ganga.

 

Samþykkt á aðalfundi 14. september 2016