Byrjendalæsi

Byrjendalæsi er nafn á samvirkri kennsluaðferð í lestri sem kennd er í 1. og 2. bekk.  Aðferðin hefur verið mótuð og þróuð við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Byrjendalæsi er samvirk nálgun í læsiskennslu þar sem unnið er með lestur, ritun, tal og hlustun. Ávallt er lögð áhersla á að nota gæðatexta. Með gæðatexta er átt við vandaðan bókmennta- eða fræðatexta sem ýtir undir ímyndunarafl nemenda og kveikir áhuga þeirra. Þessi aðferð býr yfir mörgum  verkfærum til að vinna með nemendum á þeirra forsendum.  Sjá nánar um Byrjendalæsisaðferðina  https://lesvefurinn.hi.is/node/241. Í daglegu tali er talað um Byrjendalæsi sem eina kennsluaðferð en í raun er Byrjendalæsi margar aðferðir með mismunandi nálgun á viðfangsefnum nemenda og skipulagningu á vinnu þeirra. Ferlið er unnið í lotum og er algengt að hver lota nái yfir eina til tvær vikur. Útbúin er kennsluáætlun þar sem fram kemur hvaða markmiðum verður fylgt í hverri áætlun. Tilgreint  er hvaða þætti í áætluninni á að meta og hvaða námsmatsaðferðir  verði nýttar þegar vinna nemenda er metin. Þrisvar á ári eru lögð fyrir læsiskannanir til að meta stöðu nemenda.

Akureyrarbær hefur mótað stefnu í læsi sem er ætlað að vera leiðbeinandi um læsiskennslu í leik- og grunnskólum https://lykillinn.akmennt.is/

 

Heimildir

Rúnar Sigþórsson og Halldóra Haraldsdóttir. (2017). Byrjendalæsi. Í Rúnar Sigþórsson og Gretar L. Marinósson (ritstjórar), Byrjendalæsi Rannsókn á innleiðingu og aðferð (bls. 29–61). Reykjavík: Háskólinn á Akureyri. Háskólaútgáfan.

Miðstöð skólaþróunar. (2019). Byrjendalæsi. Sótt af https://www.msha.is/is/byrjendalaesi-moodle