Réttindaskóli UNICEF

Réttindaskóli UNICEF

Jafnrétti, lýðræði og mannréttindi eru grunnþættir menntunar. Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Í lýðræðisríki þurfa borgararnir að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær.

Lýðræði er mikilvægt á vettvangi skólans. Í fyrsta lagi þurfa skólar að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Í öðru lagi þurfa skólar að taka mið af því í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.

Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.

Síðuskóli hóf innleiðingu á verkefninu á haustönn 2022. Með því skuldbinda starfsmenn skólans sig til að leggja áherslu á að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi.  

Réttindaskólar byggja á eftirfarandi grunnforsendum:

  • Þekking á réttindum barna

  • Barna- og ungmennalýðræði

  • Eldmóður fyrir réttindum barna

  • Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi

  • Samstarf með hliðsjón af réttindum barna

Grunnforsendur Barnasáttmálans verða útgangspunktur í allri ákvarðanatöku í skóla- og frístundastarfi Réttindaskólanna. Réttindaskólar njóta handleiðslu UNICEF við innleiðinguna og starfandi verður stýrihópur innan skólans. Einnig er starfandi réttindaráð í skólanum sem í eru 2 fulltrúar úr 2. – 10. bekk auk stýrihóps starfsfólks.

Réttindaráð Síðuskóla.

Heimasíða Réttindaskóla UNICEF