Náms- og starfsráðgjöf

Náms-og starfsráðgjafi

Kristjana Hvönn Þrastardóttir er ráðgjafi Síðuskóla. 

Náms- og starfsráðgjafi starfar í þágu nemenda og er trúnaðar-og talsmaður þeirra.

Náms- og starfsráðgjafi, sem er með skrifstofu á tengigangi milli A og B álmu, er við alla daga vikunnar frá 8-16 nema á föstudögum 8-13. Ekki er nauðsynlegt að bóka viðtal fyrirfram en það er betra. Nemendur eru hvattir til að líta inn, vanti þá ráðgjöf eða vilji spjalla og er opinn tími hjá náms- og starfsráðgjafa alla daga frá kl. 11-11:30. Hægt er að bóka viðtal með tölvupósti (kristjanahvonn@akmennt.is), í síma 4622588 eða hjá ráðgjafanum sjálfum.

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er að vinna með nemendum, forráðamönnum, kennurum og öðrum sérfræðingum innan og utan skólans að ýmiss konar velferðarstarfi er snýr að námi, líðan og framtíðaráformum nemenda.

Allir nemendur og forráðamenn þeirra eiga kost á að nýta sér þjónustu náms- og starfsráðgjafa.

Námsráðgjafinn er bundin þagnarskyldu varðandi þær upplýsingar sem honum er trúað fyrir í starfi sínu.

Námsráðgjafinn getur aðeins rætt trúnaðarmál við aðra hafi nemandi veitt samþykki fyrir því eða ef námsráðgjafinn telur að líf og heilsa nemandans sé í húfi.

Helstu verkefni náms- og starfsráðgjafa

Persónuleg ráðgjöf og stuðningur
Persónuleg ráðgjöf felst í að veita nemendum og forráðamönnum þeirra ýmiss konar aðstoð og stuðning til þess að nemendur eigi auðveldara með að ná settum markmiðum í námi sínu. Persónuleg mál nemenda geta verið af ýmsum toga s.s. félagsleg, námsleg, tilfinningaleg eða tengd samskiptum. Námsráðgjafinn aðstoðar nemendur við að leita lausna og veitir þeim stuðning.

Náms- og starfsfræðsla
Náms- og starfsfræðsla miðar að því að kynna nám og störf fyrir nemendum. Tilgangurinn er að auðvelda þeim val um nám og störf að loknum grunnskóla og auka líkur á að hver og einn velji sér nám sem honum líkar og hentar. Lögð er áhersla á að nemendur efli og þroski þekkingu á sjálfum sér, námsleiðum sem í boði eru og störfum í atvinnulífinu.
Aðstoð námsráðgjafa felst m.a. í: verkefnum sem efla þekkingu nemenda á gildismati sínu, viðhorfum og hæfileikum (t.d. áhugasviðsgreiningar) en einnig í hópráðgjöf og einkaviðtölum. Einnig veitir náms – og starfsráðgjafinn upplýsingar um skóla, námsleiðir, störf og atvinnulíf.

Forvarnir
Fyrirbyggjandi aðgerðir með fræðslu af ýmsu tagi.

Námstækni. 

Námstækni er bætt skipulag í námi og geta allir nýtt sér slíkt ef vilji er fyrir hendi.
Ávinningur af því að koma sér upp góðri námstækni getur verið: Skipulagðari vinnubrögð, tímasparnaður, minni námskvíði, aukinn námsárangur.
Námsráðgjafi kynnir námstækni fyrir nemendum með það að markmiði að þeir kynnist hugsun, viðhorfum, aðferðum og námsvenjum sem hafa reynst árangursríkar. Mikilvægt er að nemandi vilji sjálfur bæta eða breyta námsaðferðum sínum en slíkt hugarfar er nauðsynleg forsenda góðs árangurs í námstækni.

Hér er hægt að nálgast tímatöflu sem er gott að hafa til að skipuleggja hvaða tíma á nota fyrir heimanámið og önnur verkefni.