Í Síðuskóla sýnum við ábyrgð, virðingu og vináttu
7. bekkur ásamt umsjónakennurum og Ernu Björg heimilisfræðikennara hafa undanfarnar vikur unnið að verkefninu Jól í skókassa. „Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Skókassarnir verða sendir til Úkraínu, þar í landi búa um 46 milljónir manna; atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.
Nemendur unnu að því að fylla 12 skókassa og fóru með þá fullbúna í morgun í Glerárkirkju sem hefur tekið að sér að koma þeim áfram. Þar var tekið afar vel á móti þeim af Eydísi Ösp djákna og áttu þau þar góða stund saman í leikjum og fengu kakó og piparkökur sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag við þetta góða verkefni.
Í kössunum eru ýmsir þarfir hlutir einsog húfur og tannbursti ásamt góðum og fallegum gjöfum sem gleðja, litir dót og nammi. Vert er að þakka öllum þeim sem gáfu hluti í kassana í ár, sérstaklega nemendum, foreldrum þeirra og starfsfólki Síðuskóla sem lögðu hönd á plóginn.
Í morgun lauk lestrarátaki haustsins með 3. útdrættinunum í happaleiknum. Það hefur gengið rosalega vel og þátttakan hefur verið frábær á öllum stigum. Því til sönnunar má sjá hve tréin í lundinum eru orðin þétt laufguð. Þau munu prýða gluggana eitthvað áfram og minna okkur á mikilvægi þess að vera dugleg að lesa. Reglulegur lestur þjálfar okkur ekki aðeins heldur opnar nýja heima og leyfir okkur að kynnast fólki og stöðum sem við annars hefðum aldrei kynnst. Lestur hjálpar okkur líka í öllum öðrum námsgreinum, því góð lestrarfærni gerir allt annað nám auðveldara.
Í morgun voru dregin út:
Kristófer Erik í 3. bekk, Árný Ýr í 5. bekk og Sofie Ýsabella í 8. bekk.
Fyrir höfðu þessir nemendur verið dregin út:
Rökkvi 4.b, Aron Þ. 4.b, Sara 6.b, Rakel 6.b, Kristján Huldar 10.b og Viktoría 8.b.
Við óskum þeim öllum til hamingju, verðlaunin eru bíómiði.
Við hvetjum öll til að vera dugleg að lesa áfram og mun læsisnefndin vera aftur með annað átak seinna í vetur.
Myndir sem sýna þróunina má sjá hér.

Í morgun fékk yngsta stigið heimsókn frá ögn hræðilegum verum þegar "List fyrir alla" bauð uppá óhugnalega jasstónleika með hrekkjavökuívafi fyrir yngsta stigið. Söngkonan Ingibjörg Fríða seiddi fram Síðuskóladrauga og norn sem reyndust vera mjög flinkir á kontrabassa og píanó.
Þessir draugar ganga annars undir listamannanöfnunum: Ingibjörg Fríða Helgadóttir söngkona, Sunna Gunnlaugsdóttir píanóleikari og Leifur Gunnarsson bassaleikari




