Í Síðuskóla sýnum við ábyrgð, virðingu og vináttu
Í morgun fengum við afskaplega skemmtilega heimsókn. Ævar Þór Benediktsson rithöfundur og leikari heimsótti 4.-8. bekk og sagði okkur aðeins frá því sem hann hefur verið að fást við. Við þekkjum hann líka mörg sem vísindamann úr sjónvarpinu. Hann las að lokum uppúr nýjustu bók sinni og skildi okkur eftir í gríðarlegri spennu um hvað gerist svo næst ? Í lokin fengu krakkar að koma með tillögu um hvað þau myndu breyta í Síðuskóla ef þau væru skólastjórinn. Það komu nú ýmsar athyglisverðar tillögur fram, en fljótlega fóru nú líka margar að stangast á og getur orðið að risastóru veseni ef af yrði. Því ætli það sé ekki einmitt raunin fyrir Salvar skólastjóra hans góðu hugmyndir reynast kannski ekki alveg eins góðar í raun þegar til kemur en um það verðum við að lesa sjálf í bókinni :)

Í morgun var setning Upphátt upplestrarkeppni 7. bekkjar og Litla upplestrarkeppnin, í 4. bekk. Setningin markar upphaf ræktunartímabilsins sem fer nú í hönd hjá þessum árgöngum sem endar svo með keppni Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri í mars og uppskeruhátíð 4. bekkjar í vor. Meginmarkmið þeirrar keppni er meira framfarir og að verða þannig betri í upplestri, framsögn og að kynnast íslensku ljóðmáli.
Þessar keppnir eru alltaf settar á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, sem í ár bar reyndar uppá sunnudegi en sá dagur er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Hér neðar í fréttinni er nokkrir hlutar úr setningu Ólafar skólastjóra sem fræddi okkur aðeins um þennan merka mann og hvatti nemendur til dáða. En talið er að Jónas hafi búið til um 200 ný orð sem gerir það að verkum að við eigum okkar eigin séríslensk orð yfir mörg fyrirbæri sem við notum ennþá í dag í stað þess að fá bara útlensk orð lánuð og tapa þannig niður orðaforðanum okkar.
"Jónas Hallgrímsson var fæddur á þessum degi 1807 að Hrauni í Öxnadal. Ef þið eruð á t.d. á leið til Reykjavíkur þá keyrið þið fram hjá þessum bæ. Fyrir ofan hann eru stórir hraundrangar. Einnig keyrið þið fram hjá Jónasarlundi og Jónasarlaug en það er heitið á sundlauginni á Þelamörk. Þar má líka sjá kvæði eftir Jónas. Það má líka nefna það að við fórum í gönguferð upp að Hraunsvatni og ef ég man rétt þá voru þið sem eruð í 7. bekk í 1. bekk þegar það var. Jónas orti ekki bara kvæði, heldur skrifaði líka sögur og stundaði nám og rannsóknir í náttúruvísindum.
Þegar við æfum okkur að lesa þá er nauðsynlegt er að vanda flutning og framburð íslensks máls, læra að njóta þess að flytja móðurmálið okkar, sjálfum okkur og öðrum til ánægju og bera virðingu fyrir móðurmálinu, sjálfum okkur og öðrum. Lestur þarf að æfa. Þið sem takið þátt í íþróttum eða leikið á hljóðfæri vitið að það þarf að æfa til að ná árangri. Það er eins með lesturinn, það þarf að æfa sig til að ná árangri.
Fulltrúar Síðuskóla í Upphátt í fyrra, þær Sóley Katla og Katrín Birta lásu fyrir okkur ljóðið "Komdu kisa mín" eftir Rögnvald Jónasson og stuttan kafla út Barist í Barcelona eftir Gunnar Helgason.
Myndir frá setningunni í morgun



Árshátíð Síðuskóla fór fram dagana 13-14. nóvember og gekk í alla staði frábærlega. Nemendur allra árganga settu á svið hin ýmsu verk og sýndu fyrir hverju öðru og foreldrum þessa dagana. Það er alltaf gaman að sjá þegar vinna undangenginna vikna gengur upp í svo frábærum atriðum og við upplifum samstöðu og gleðina í hópunum yfir vel lukkuðu verki. Og það hafa allir hlutverk á dögum sem þessum, ekki bara þau sem sjást á sviðinu heldur einnig fjöldamörg störf á bak við tjöldin, mikil skipulagsvinna og utanumhald árshátíðarnefndar, starfsmanna, eldri nemendur að aðstoða þau yngri, foreldrar að sjá um kaffisölu og svona mætti áfram telja. Hér að neðan má sjá myndir frá árshátíðunum stigskipt: