Litla upplestrarkeppnin í 4. bekk
Litla upplestrarkeppni 4. bekkjar var haldin á sal í gær. Keppnin er uppskeruhátíð nemenda, foreldra og kennara sem hafa unnið í samvinnu og markvisst með íslenska tungu og upplestur síðan keppnin var sett formlega á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember síðastliðinn. Það er skemmst frá því að segja að nemendur stóðu sig hreint frábærlega og fluttu þulur og bundið mál bæði í söng og framsögn. Það var virkilega ánægjulegt að hlýða á og greinilegt að þau hafa æft sig vel í vetur.
Sumum finnst skrýtið að nota orðið “keppni” þar sem enginn einn stendur uppi sem sigurvegari. Mikilvægt er að muna að keppnishugtakið í þessu verkefni felur einungis í sér að verða betri í lestri og framkomu í dag en í gær. Það er mikilvægt að geta bæði keppt að betri árangri og sett sér markmið án samkeppni við aðra en sjálfan sig.
Litla upplestrarkeppnin er afkvæmi Stóru upplestrarkeppninnar eða Upphátt eins og hún er kölluð á Akureyri. Góðar fyrirmyndir eru mikilvægar og því voru fulltrúar okkar í þeirri keppni, þær Katrín Birta og Sóley Katla úr 7. bekk, fengnar til að lesa ljóð að þessu tilefni.