Jól í skókassa
7. bekkur ásamt umsjónakennurum og Ernu Björg heimilisfræðikennara hafa undanfarnar vikur unnið að verkefninu Jól í skókassa. „Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Skókassarnir verða sendir til Úkraínu, þar í landi búa um 46 milljónir manna; atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.
Nemendur unnu að því að fylla 12 skókassa og fóru með þá fullbúna í morgun í Glerárkirkju sem hefur tekið að sér að koma þeim áfram. Þar var tekið afar vel á móti þeim af Eydísi Ösp djákna og áttu þau þar góða stund saman í leikjum og fengu kakó og piparkökur sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag við þetta góða verkefni.
Í kössunum eru ýmsir þarfir hlutir einsog húfur og tannbursti ásamt góðum og fallegum gjöfum sem gleðja, litir dót og nammi. Vert er að þakka öllum þeim sem gáfu hluti í kassana í ár, sérstaklega nemendum, foreldrum þeirra og starfsfólki Síðuskóla sem lögðu hönd á plóginn.





