Fréttir

Páskafrí

Starfsfólk Síðuskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska og vonum við að páskaleyfið verði ánægjulegt. 
Kennsla hefst að loknu páskafríi þriðjudaginn 14. apríl, skólastarfið verður með svipuðu sniði og síðustu daga. 

Við hvetjum alla til að taka þátt í lestrarátakinu Tími til að lesa. Hér er hægt að sjá nánari upplýsingar um það. Þetta er einfalt: Því meira sem við lesum því betra.

Lesa meira

Skólaskák

Nú þegar skóladagur er skertur og skákkennsla í skólum liggur niðri hefur Skákfélag Akureyrar, í samstarfi við Skáksamband Íslands ákveðið að blása til netskákmóta fyrir grunnskólanemendur á Norðurlandi eystra. Mótin verða alla fimmtudaga og hefjast klukkan 16:30 og standa í klukkustund.  Hér má sjá nánari leiðbeiningar um mótið og hvernig hægt er að skrá sig.

Lesa meira

Stuðningssíða fyrir nám í 5.-10. bekk

Góðan daginn.
Eins og fram hefur komið síðustu daga eru sérstakar aðstæður uppi í samfélaginu. Það á einnig við um okkur hér í skólanum og eins og staðan er núna vinnur unglingastigið heima í óákveðinn tíma. Nemendur í 5.-7. bekk mæta í skólann annan hvern dag en vinna heima hina dagana. Við höfum því sett upp stuðningssíðu til að auðvelda nemendum og foreldrum aðgengi að námsefni og upplýsingum. Á henni er hægt að finna upplýsingar um námið ásamt þeim verkefnum sem kennarar leggja til. Þó við séum ekki með hefðbundinn skóladag eiga allir að hafa aðgengi að efni. Síðasta vika gekk mjög vel og fundum við vel að allir ætla að vinna saman að því verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Það er því mikilvægt að vera í góðu sambandi við skólann og kennarana til að hafa sem bestar upplýsingar um nám nemanda meðan á þessu fyrirkomulagi stendur. Ef nemendur hafa ekki aðgang að tölvu þá er hægt að fá lánaða chromebook tölvu hjá okkur. Á stuðningssíðunni er hægt að sækja um að fá lánaða tölvu.

Hér er að finna hlekk á vefsíðuna, einnig er búið að setja flýtihnapp hér fyrir ofan á heimasíðunni.
https://sites.google.com/siduskoli.is/fjarnam/heim

Bestu kveðjur,
stjórnendur Síðuskóla

Lesa meira

Breytt skólahald frá og með morgundeginum 24. mars


Ágætu foreldrar

Í ljósi nýjustu tilmæla Almannavarna þarf að endurskoða skipulag skólastarfs frá og með þriðjudeginum 24. mars. Sóttvarnir eru forgangsmál hjá öllum í samfélaginu og eiga þær við allsstaðar og alltaf. Hólfun skóla verður enn markvissari en verið hefur og tekið verður fyrir allan ónauðsynlegan samgang á milli þeirra hvort sem um nemendur eða starfsfólk er að ræða.

Nú er okkur gert að fækka í hópum eldri nemenda og skólar munu því vinna samkvæmt því sem hér segir:

-        1.-4. bekkur verður áfram fram til hádegis í skólanum skv. sama skipulagi og verið hefur

-        5.-7. bekk verður skipt í tvo hópa og mæta nemendur annan hvern dag samkvæmt nánara skipulagi sem ykkur berst frá hverjum skóla.

-        8.-10. bekkur verður alfarið í heima- og sjálfsnámi með aðstoð kennara

Eindregin tilmæli eru um að þeir foreldrar sem eru heima yfir daginn og geta haft börn sín heima geri það. Það styrkir enn frekar sóttvarnir og auðveldar starfsfólki að halda uppi reglubundnu starfi.

Bestu þakkir fyrir ríkan skilning á stöðunni og það er gott að finna hvernig samtakamátturinn fleytir okkur áfram við aðstæður sem þessar.

Karl Frímannsson

sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar

Lesa meira

Líf og fjör á kaffistofu starfsfólks

Kaffistofum starfsfólks í skólanum hefur verið fjölgað í samkomubanninu. Á einni þeirra voru bakaðar vöfflur til að létta lundina.

Hér má sjá myndir.

Lesa meira

Skólastarf í samkomubanni

Skólahald hefur gengið mjög vel hjá okkur eftir að samkomubann gekk í gildi. Skólanum hefur verið skipt í svæði sem og skólalóð svo hópar blandist ekki. Foreldrar hafa greinilega undirbúið nemendur vel þannig að þeir hafa tekið breyttum aðstæðum og skipulagi af yfirvegun. Mikil áhersla er lögð á að brjóta skóladaginn upp með útiveru og hreyfingu. Við tökum einn dag í einu og endurskoðum skipulag daglega til að starfsfólki og nemendum líði eins vel og kostur er í þessum nýju aðstæðum. 

Hér má sjá nokkrar myndir. 

Lesa meira

Skipulag skólahalds næstu vikur

Skólahald verður með öðru sniði næstu vikur. Hér er að finna upplýsingar varðandi skipulag sem tekur gildi frá og með morgundeginum, 17. mars. 

Sendur hefur verið póstur heim með skipulaginu. Mikilvægt er að farið sé vel yfir skipulagið með nemendum áður en þeir mæta í skólann. Einnig biðjum við fólk um að fylgjast vel með tölvupósti og heimasíðu því skipulagið getur breyst með stuttum fyrirvara. 


Ef einhverjar spurningar vakna hvetjum við ykkur til að vera í sambandi í gegnum tölvupóst eða síma en öll umferð um skólann verður takmörkuð eins og mögulegt er við starfsfólk og nemendur. 

Rétt er að árétta að matur verður einungis í boði fyrir nemendur í 1.-3. bekk.

Hér er bréf sem sent var foreldrum og forráðamönnum.

Lesa meira

Starfsdagur í grunn- og leikskólum Akureyrarbæjar mánudaginn 16. mars

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga sem fela m.a. í sér að skólahald verður takmarkað tímabundið. Nánari útfærslur verða unnar samkvæmt tilmælum stjórnvalda.

 Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að mánudaginn 16. mars verði starfsdagur í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar svo stjórnendur og starfólk geti skipulagt skólastarfið sem best á þessu tímabili sem takmörkunin nær til.

 Foreldrar leik- og grunnskólabarna eru beðnir að fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu um helgina og á mánudaginn m.a. á heimasíðu Akureyrarbæjar og heimasíðum grunn- og leikskóla.

Lesa meira

Útivistardegi frestað

Því miður verðum við að fresta útivistardeginum. Í Hlíðarfjalli er mjög kalt og mikil snjókoma. Við reynum aftur síðar.

 

Lesa meira

Upplýsingabréf Almannavarna til foreldra/forráðamanna vegna COVID 19

Hér má sjá þau bréf sem skólastjóri sendi í morgun á foreldra og forráðamenn varðandi COVID-19. Þetta eru bréf til foreldra/forráðamanna á íslensku, ensku, pólsku. Einnig er hér að finna bréf almannavarna til fræðsluaðila.

Lesa meira